„Steinunn, ekki láta sjá þig – ég nenni ekki að fá karlinn í heimsókn.“
Ég var líklega um fimm ára þegar ég heyrði þessi orð. Þau snerust um nágranna okkar, sem var á sínum reglulega drykkjutúr. Ég man að ég hugsaði: „Ooo, en mér finnst svo gaman að fá hann í heimsókn! Hann nennir alltaf að spila við mig ‘Glugga’.“ Það var mitt uppáhalds spil því það reyndi á minnið.
Stundum fékk hann að koma inn, þrátt fyrir að vera undir áhrifum, fann ég gremjuna og óþægindin í mömmu minni. Ég skil í dag hvaðan sú gremja kom. En í mínum barnslega einlægni sá ég bara hlýjan mann sem vildi spila við mig.
Ef hann datt út úr spilinu, ýtti ég bara við honum og hló dátt þegar hann mundi ekki hvar hann hafði lagt síðasta spilið. Ég hjálpaði honum að finna það og svo héldum við áfram að spila.
Þótt áfengið væri hans böl, fann ég samt ljósið hans. Ég fann einlægnina hans og þegar ég hitti hann eftir að áfengið var runnið úr æðum hans, fann ég líka skömmina hans.
Af hverju er ég að deila þessari minningu?
Ég hef alla tíð haft óendanlegan áhuga á mannlegu eðli – hvað fær okkur til að missa sjónar á gæskunni okkar? Hvað veldur því að við förum út af sporinu?
Í dag veit ég að ástæðan er oft óunnin áföll.
Þessar pælingar hafa leitt mig inn í djúpar upplifanir í lífinu, bæði töfrandi og erfiðar. Ég setti út í kosmósið að mig langaði að skilja – og þegar við biðjum um skilning, lærum við oft á eigin skinni, bæði í gegnum ljós og myrkur.
Þessi vegferð hefur gefið mér dýpri skilning á mannsandanum og kennt mér að lífið getur verið fullt af töfrum ef við opnum okkur fyrir því. Hún hefur veitt mér innblástur til að læra meira, leitt mig í átt að námskeiðum og námi sem snýr að því að skilja okkur sjálf og aðra betur. Hún hefur einnig gefið mér dýrmæt tengsl við magnað fólk sem dvelur í dýptinni og leyfir sér að upplifa bæði ljós og skugga án þess að láta nokkuð sigra sig.
Þetta ferðalag hefur leitt mig að mínu af hverju.
Mitt af hverju?
Ég brenn fyrir því að sjá fólk finna innri frið, brjótast út úr skel sinni og finna sitt eigið af hverju. Að sjá fólk blómstra, finna tilgang, styrk og betri líðan er það sem veitir mér kraft og gleði.
Hvert er þitt af hverju?