Áramótin 2025 - hugrenningar!

Nýtt ár er einstakur tími til að endurskoða hvað þú vilt hafa í lífinu og hvað ekki, setja sér raunhæf markmið og leggja svo á sig vinnu til að þau verði að veruleika, það er reyndar gott að gera þetta reglulega yfir árið.
Í byrjun árs er hugurinn oft fullur af hugmyndum og þú átt jafnvel erfitt með að halda ró til að ná utanum þær allar, en það er mikilvægt að leyfa sér að dreyma um það sem við viljum og hvernig við viljum vaxa sem einstaklingar.

Þegar við stöndum á þessum krossgötum um að við viljum gera breytingar í lífi okkar þá þurfum við oft á hjálpa að halda, við þurfum einhver tæki og tól til að koma okkur inn á þá braut sem við viljum vera á.
Við gætum þurft að leita til einhverra sérfræðinga á því sviði sem við viljum vinna með hvort sem það er á praktísku sviði eða andlegu. Við getum sótt námskeið og einkatíma sem er ógrynni af þarna úti, til að styðja okkur í að vaxa og verða betri útgáfan af okkur sjálfum.

Það er stöðugt ferðalag að komast heim í hjarta sitt og vaxa, við fáum ekki meistaragráðu á einu námskeiði og höldum að við séum útskrifuð, við þurfum alltaf að halda okkur við með einhverskonar iðkun og lærdómi, annars stöðnum við og getum farið að falla í gamalt far sem við höfum kannski lagt mikla vinnu í að komast út úr.

Jóga er eitt af þessum tækjum eða verkfærum sem getur verið einstakt á því ferðalagi sem við erum í, jóga hjálpar okkur að lifa í einingu og gefur okkur skilning á því að við og allt er orka. Við höfum val til að skapa orkuna sem við viljum vera í og hvaða orku við viljum ekki hafa inni í lífi okkar. Þung orka hvort sem það er frá öðrum eða ytri aðstæðum getur haft slæm áhrif á okkur og jafnvel veikt okkur. Jóga getur hjálpað þér að greina betur þessa orku og taka skref til að verja þig gegn henni eða koma þér frá henni.

Hefur þú spurt þig hvað þú vilt gera til að næra þig og efla á þessu ári? Kveiktu jafnvel á kertaljósi lyngdu aftur augunum, andaðu djúpt og leyfðu því að koma til þín sem gæti eflt þig þetta árið. Það getur verið sterkur leikur að skrifa niður það sem kemur og lesa það reglulega yfir hvort sem það eru markmið að bættri líðan eða einhverju öðru sem þú vilt kalla inn í líf þitt.
Þegar við setjum okkur markmið er mikilvægt að mæta sér með mildi þora að sleppa takinu og leyfa þér að vaxa á þínum hraða

Að finna mitt af hverju – ferðalag inn í mannsandann!

„Steinunn, ekki láta sjá þig – ég nenni ekki að fá karlinn í heimsókn.“

Ég var líklega um fimm ára þegar ég heyrði þessi orð. Þau snerust um nágranna okkar, sem var á sínum reglulega drykkjutúr. Ég man að ég hugsaði: „Ooo, en mér finnst svo gaman að fá hann í heimsókn! Hann nennir alltaf að spila við mig ‘Glugga’.“ Það var mitt uppáhalds spil því það reyndi á minnið.

Stundum fékk hann að koma inn, þrátt fyrir að vera undir áhrifum, fann ég gremjuna og óþægindin í mömmu minni. Ég skil í dag hvaðan sú gremja kom. En í mínum barnslega einlægni sá ég bara hlýjan mann sem vildi spila við mig.

Ef hann datt út úr spilinu, ýtti ég bara við honum og hló dátt þegar hann mundi ekki hvar hann hafði lagt síðasta spilið. Ég hjálpaði honum að finna það og svo héldum við áfram að spila.

Þótt áfengið væri hans böl, fann ég samt ljósið hans. Ég fann einlægnina hans og þegar ég hitti hann eftir að áfengið var runnið úr æðum hans, fann ég líka skömmina hans.

Af hverju er ég að deila þessari minningu?

Ég hef alla tíð haft óendanlegan áhuga á mannlegu eðli – hvað fær okkur til að missa sjónar á gæskunni okkar? Hvað veldur því að við förum út af sporinu?

Í dag veit ég að ástæðan er oft óunnin áföll.

Þessar pælingar hafa leitt mig inn í djúpar upplifanir í lífinu, bæði töfrandi og erfiðar. Ég setti út í kosmósið að mig langaði að skilja – og þegar við biðjum um skilning, lærum við oft á eigin skinni, bæði í gegnum ljós og myrkur.

Þessi vegferð hefur gefið mér dýpri skilning á mannsandanum og kennt mér að lífið getur verið fullt af töfrum ef við opnum okkur fyrir því. Hún hefur veitt mér innblástur til að læra meira, leitt mig í átt að námskeiðum og námi sem snýr að því að skilja okkur sjálf og aðra betur. Hún hefur einnig gefið mér dýrmæt tengsl við magnað fólk sem dvelur í dýptinni og leyfir sér að upplifa bæði ljós og skugga án þess að láta nokkuð sigra sig.

Þetta ferðalag hefur leitt mig að mínu af hverju.

Mitt af hverju?

Ég brenn fyrir því að sjá fólk finna innri frið, brjótast út úr skel sinni og finna sitt eigið af hverju. Að sjá fólk blómstra, finna tilgang, styrk og betri líðan er það sem veitir mér kraft og gleði.

Hvert er þitt af hverju?

Jóga áhuginn!

Frá því ég man eftir mér hef ég haft djúpan áhuga á jóga – þó vegferðin hafi tekið ýmsar áhugaverðar beygjur á leiðinni.

Sem barn sat ég límd yfir öllum heimildarmyndum sem sýndar voru á RÚV og sérstaklega rifjast upp myndir af fakírum sem framkvæmdu furðulegar og sársaukafullar aðferðir – eins og að liggja á naglabrettum, draga hluti með krókum í gegnum líkamann, eða framkvæma hreinsun á ennis og kinnholum með efnistuskum. Þó þessar aðferðir eigi ekki við jóga í klassískum skilningi, kveiktu þær djúpan áhuga hjá mér:
- Hvað getur líkami og hugur í raun afrekað með aga og þjálfun?

Þegar ég var fimmtán ára fékk ég í hendurnar litla bók, þýdda af Steinunni Briem, sem opnaði fyrir mér heim jógaheimspekinnar. Þar lærði ég að orð og hugsanir hafa áhrif – jafnvel yfir þúsundir kílómetra. Þetta kveikti með mér djúpa meðvitund um orku:
⁠- Hvernig ég hugsa og tala, jafnvel í hljóði, skiptir máli – og hefur áhrif.

Frá líkamsæfingum að lífstíl

Með tímanum fór ég að sækja jógatíma, bæði hér heima og erlendis. Árið 2007 hóf ég mitt fyrsta formlega jóganám. Því dýpra sem ég hef farið, þeim mun betur hef ég skilið að orka vinnur með okkur – eða á móti – allt eftir því hvernig við mætum okkur sjálfum og heiminum.

Ég hef oft beðið alheiminn um að sýna mér og kenna – af hverju við erum eins og við erum, og hvernig við getum umbreyst. Og já, ég hef fengið mörg tækifæri til að læra… á eigin skinni.

Jógaþerapía, Yin jóga, áfallamiðað jóga og jóga nidra hafa kennt mér að nær allir ganga í gegnum eitthvað sem markar þá – en að leiðin út liggur oftast inn á við.

Þar sem umbreytingin gerist

Í þessum fræðum fann ég dýrmætan veg:
⁠⁠- Leiðina til að skilja okkur sjálf, sýna okkur mildi og vera með okkur – líka þegar við förum út af sporinu.

Í dag er ég óendanlega þakklát fyrir að fá að miðla þessari visku áfram. Í minni kennslu legg ég sérstaka áherslu á: hlýju, mýkt og sjálfsmildi.… því það er í þessu rými sem umbreytingar gerast.

Það er neisti innra með okkur öllum sem þarf oft mildi, mýkt, hlýju og kyrrð til að fá að kvikna og loga.

Að skapa net-námskeið með hjartanu!

Það er ótal margt sem gerist bakvið tjöldin áður en netnámskeið fer í loftið.

Sérstaklega þegar um er að ræða námskeið sem snýst um innri vinnu – um að mæta sjálfum sér með mildi, rýna inn á við og opna á umbreytingu.

Þetta er ekki bara texti og myndband. Þetta er rými. Rými sem þarf að vera öruggt, nærandi og satt.
Það þarf að halda utan um fólk, líka í gegnum skjáinn.

Það sem birtist á vef eða í pósthólfi virkar kannski einfalt – kannski fallegt – en undir yfirborðinu býr djúp hugmyndavinna, úrvinnsla, prófanir, endurskoðun, innblástur og tími....mikill tími.

Það sem virðist vera 4 vikna námskeið er oft afrakstur margra mánaða íhugunar, jafnvel ára, lærdóms og persónulegs ferðalags.

Það felst ákveðin hugrekki í því að miðla efni um sjálfsþroska. Að skapa það, að halda utan um það, að deila sinni rödd, sinni innsýn og vonast til að hún snerti við einhverjum.

Að búa til námskeið sem fjallar um innri ró og sjálfsmildi krefst þess sama af kennaranum: að lifa í takt við eigin sannfæringu – og mæta sjálfum sér í allri sinni mannlegu mynd.

Því þetta er meira en bara verkefni – þetta er hluti af hjartanu mínu.

Þegar ég skila frá mér efni inn í heiminn – hvort sem það er myndband, hugleiðsla, póstur eða staðhæfing – þá fylgir alltaf smá titringur með, líkt og þegar maður réttir öðrum hluta af sér og vonar að það megi nýtast.

Svo næst þegar þú færð póst frá leiðbeinanda sem talar frá hjartanu – eða skráir þig í námskeið sem býður þér að skoða inn í sjálfa/n þig – taktu andartak til að finna fyrir þeirri orku sem liggur þar að baki.

Við kennarar finnum líka fyrir henni.
Og hún nær langt.

Ferðalag inn á við – upplifun úr fjöllum Portúgals!

Það var að vori 2017 sem ég lagði af stað í ferðalag upp í fjöllin í Portúgal, ásamt stórum hópi fólks alls staðar að úr heiminum.
Það sem sameinaði okkur var djúp löngun til að tengjast betur eigin innri veruleika – að sjá skýrar gegnum tvíhyggju hugans og finna frelsi handan hans.

Ég man tilfinninguna við brautarstöðina í Lissabon – þegar ég sá andlitin streyma að. Spenna, forvitni og ró fylltu mig, ásamt smá feimni.
Þetta var ókunnur hópur – en þó ekki alveg, því ég hafði dvalið árið áður í þagnar hlédragi hjá sama kennara og fann strax nokkur kunnugleg andlit.
Ég vissi líka að fleiri myndu bíða mín uppi í fjallaþorpinu, þar sem samveran – svokölluð Sangha gathering – fór fram.

Það er ástæða fyrir því að þessi samvera er kölluð fjölskyldufundur.
Þegar hópur fólks kemur saman með sameiginlega ásetningu og opið hjarta myndast ótrúleg tenging – eins og ósýnileg bönd sem veita skilning og öryggi á ferðalaginu sem við erum öll á.

Þessir 10 dagar í Ashraminu í Monte Sahaja höfðu djúp áhrif á mig. Ég átti þar bæði fallegar og krefjandi upplifanir.
Ég sá með eigin augum hvernig fólk gat borið með sér ýmis einkenni, jafnvel veikindi, sem fóru að leysast upp í þessu örugga og nærandi umhverfi.
Það var eins og þessi orka – sem hafði haldið þeim niðri – losnaði og birti þá upp að innan og utan.
Ásýnd suma breyttist, hreyfingar urðu frjálsari, lítil kraftaverk í smáum, en djúpum skrefum.

Ég sjálf fann fyrir alls konar hreyfingum innra með mér – ótti og efasemdir (sem ég vissi að tengdust egóinu), djúp samkennd með þeim sem voru að losa sig við gamla verki og áföll.
Það var grátað, skolfið, öskrað, hlegið og faðmast innilega.
Þarna kom einnig fram gleði, djúpt þakklæti og algjört friðarástand sem bæði ég og aðrir einstaklingar vorum að upplifa.
Þarna upplifði ég þessa óútskýranlegu tilfinning að vera snortin af einhverju sem ekki er hægt að útskýra með orðum – sem er dýpra en allt sem við sjáum.
Ég grét heilan dag, ekki af vanlíðan – heldur vegna þessarar miklu fegurðar og tengingar.

Þessi ferð breytti mér. Árið eftir fór ég aftur – og þá sá ég hvernig einstaklingar sem höfðu gengið í gegnum djúpa losun höfðu umbreyst. Sumir þeirra töluðu um að lífið hefði tekið U-beygju.
Þeir sem áður glímdu við kvíða eða depurð stóðu nú með sjálfum sér í friði – og það var ómetanlegt að fá að vera vitni að því.

Ég spyr mig oft:
Hvers vegna eru tilfinningar ennþá svona misskildar?
Hvers vegna er það talið „klikkað“ að öskra úr sér vanlíðan – frekar en að sjá það sem heilandi útrás?
Það þarf hugrekki til að öskra – og það þarf öruggt rými.
En kannski eru ekki allir tilbúnir...
Kannski er auðveldara að dreifa athyglinni en að dvelja með því sem vill losna.

En hvað gerir þú þegar orka fer að þrengja að þér?

Hefur þú fundið leið til að hleypa henni út – með virðingu og kærleika?

Hvert er lífið að leiða mig?

Þetta er spurning sem flest okkar þekkja – sérstaklega þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum, erum á krossgötum eða þegar lífið tekur óvænta beygju.

Þegar eitthvað virðist yfirþyrmandi – þegar tilgangurinn dofnar og myrkrið læðist að – er auðvelt að fara að efast.
Oftar en ekki fáum við hvatningarorð eins og „Harkaðu þetta af þér“ eða „Taktu þig á“ frá umhverfinu.

En hvað ef það býr kennsla í því að bogna, jafnvel brotna örlítið?
Hvað ef það er eitthvað dýrmætt í því að leyfa sér að finna til?

Stundum þurfum við einfaldlega að draga okkur í hlé, anda djúpt og leyfa okkur að vera mannleg. Og um leið og við minnum okkur á að það er alltaf til leið út, þá kviknar vonin aftur, jafnvel í dimmum dölum.

Það getur verið vinur, leiðbeinandi, námskeið eða jafnvel ókunnugur sem kemur með orð eða nærveru sem snertir.
Lífið er fullt af óvæntum möguleikum og dýrmætum tengingum.

Þakklæti er einfalt en öflugt verkfæri sem dregur okkur nær ljósi og von.
Þegar við iðkum það – líka fyrir það sem við sjálf höfum að gefa – fer það smám saman að vefa sig inn í líf okkar.

Þá jafnvel á erfiðum stundum kviknar traustið:
Þetta mun líða hjá. Ég mun finna leiðina mína.

Það er þessi línudans milli vonar og vonleysis sem getur kennt okkur dýpsta lærdóminn.
Með æfingu og meðvitund förum við að sjá að einmitt það sem virtist brjóta okkur – var það sem opnaði okkur.

Hugleiðing dagsins:

Hvað gerir þú þegar lífið kemur með erfið verkefni?

-Harkar þú af þér?
-Eða leyfir þú þér að vera – að finna og upplifa?

Fullt tungl 07.09.2025 og 999 orkan!

Þann 07.09.2025 var einstök orka þegar jörðin varpaði skugga sínum á tunglið sem glóði í rauðum bjarma – svokallaður blóðmáni. Því miður huldu rigningarskýin þetta hér á Suðurlandi.

Fullt tungl með myrkva boðar opinberanir, umbreytingar og nýtt upphaf.

Það hvetur okkur til að sleppa tökum, treysta innsæinu og samræmast flæðinu.

9. september 2025, erum við að stíga inn í 999 orkuna: dagurinn (9), mánuðurinn (9) og árið 2025 (2+0+2+5=9). Talan 9 táknar lok, visku og að ljúka hringrás. Þegar hún birtist þrisvar verður hún sérstaklega öflug – eins og alheimurinn bjóði okkur að loka gömlum dyrum með þakklæti og stíga inn í nýtt rými með skýrleika og styrk.

Þetta er tími til að spyrja: Hverju þarf ég að sleppa?

Er það vinna, fólk, samband eða hugsanamynstur sem heldur aftur af mér? Oft þegar við erum á krossgötum, þá getum við valið hvort við horfum í augu við okkar eigin myrkur eða forðumst það. Myrkrið birtist gjarnan í hugsanaskekkjum sem við höfum tileinkað okkur vegna áfalla eða kenndrar hegðunar. Þegar við lærum að sjá og elska þessa parta af okkur sjálfum, sleppum við raunverulega og öðlumst meiri frið.

Það er auðvelt að dýfa tánum í myrkrið en hoppa svo aftur í næsta verkefni sem nærist á egóinu. Það veitir skammtíma fullnægju en skilur eftir tómarúm. Innri friður krefst þess að við leyfum okkur að finna til, að falla og læra af því sem heldur aftur af okkur. Þá þurfum við minna af ytri gæðum og förum frekar að næra okkur á uppbyggjandi hátt.

Gulrótin við innri frið er gleðin og samkenndin. Þær hjálpa okkur að skilja tilgang sorgar, vonbrigða, höfnunar, gremju, reiði og mistaka. Frelsið felst í því að lifa í þessum friði, hætta að dæma okkur sjálf og læra að vera í jafnvægi.

Svo ég spyr þig: Hverju ætlar þú að sleppa í dag til að stíga nær þínum innri friði?

Þú gætir gert litla athöfn sem hjálpar þér að sleppa, kveikt á kerti, skrifað niður það sem þú vilt sleppa takinu af og annaðhvort rifið blaðið eða brennt það. Mundu bara að sleppa með þakklæti því allt sem við upplifum er kennsla til okkar á einn eða annan hátt.

Athafnir sem þessar er hægt að gera á hverju fullu tungli.

Hugrenningar um mæður og áföll.

Ég rakst á þessa grein og fór í þessar hugrenningar í kjölfarið.

Ég tek hattinn ofan fyrir öllum mæðrum – og sérstaklega þeim sem eignuðust börn með stuttu millibili. Líkaminn þarf að jafnaði um sex mánuði til að græða sár eftir fæðingu, hormónakerfið allt að tvö ár til að komast í jafnvægi, og margar konur finna ekki raunverulega tengingu við sjálfa sig fyrr en fimm árum síðar.

Þegar ég hugsa um líðan mömmu minnar og kvenna af hennar kynslóð – sem margar hverjar voru varla búnar að jafna sig áður en þær urðu ófrískar á ný – fyllist ég lotningu og samúð. Margar eignuðust fjögur eða fleiri börn á fimm til sex árum. Líffræðilega séð er slíkt álag gífurlegt og í raun galið að ætlast til þess af nokkurri konu.

Á þeim tíma var ekki talað um fæðingarþunglyndi eða andlega líðan nýbakaðra mæðra. Konur voru stimplaðar „móðursjúkar“ eða settar á róandi lyf – þegar það sem þær þurftu var hvíld, stuðningur, skilningur og ást. Engin móðir er fullkomin, allar eru að gera sitt besta miðað við það ástand sem þær erum í.

Á fullorðinsárum berum við þó ábyrgð á því að vinna úr eigin áföllum, en þegar konur eru að ala upp mörg börn er lítill tími fyrir þannig vinnu.

Áföll – bæði okkar eigin og forfeðranna – hafa djúp áhrif. Nýjustu vísindi staðfesta það sem jógafræði og önnur andleg speki hafa kennt í þúsundir ára: að við berum í okkur minningar og áföll kynslóða. Þau geta komið fram sem óljós óþægindi tengd stöðum eða aðstæðum sem við höfum aldrei sjálf upplifað. Það er eins og kista sé í DNA-inu okkar, sem geymir reynslu formæðra og forfeðra.

Þess vegna er svo mikilvægt, þegar við göngum inn á leið heilunar, að skoða ekki aðeins okkar eigin lífssögu heldur líka þá arfleifð sem við berum með okkur. Mæta því með skilningi sem hefur gerst í fortíðinni, sleppa og finna sátt. Þar getur legið lykillinn að frelsi – fyrir okkur, börnin okkar og komandi kynslóðir.

Frelsi og innri friður er það sem við erum öll að leita að meðvitað eða ómeðvitað.

Seigla eða áfallatengsl?

Ég hlustaði á hlaðvarp um daginn þar sem var viðtal við unga konu sem upplifði alvarlega kulnun eftir að hafa starfað undir yfirmanni sem beitti andlegu ofbeldi í formi gaslýsingar, íllu umtali og öðru slíku. Það sem fékk mig til að staldra við var þegar farið var að tala um seiglu – og að það hefði verið orsökin fyrir því að hún stóð þetta af sér svona lengi.

Afleiðingin varð þó sú að hún brann út og er enn, nokkrum árum síðar, að jafna sig.

Þetta er því miður ekki óalgengt. Sjúkir einstaklingar ná stundum til valda og skapa eitruð vinnustaðarumhverfi þar sem fólk heldur sér fast í ótta við að missa vinnuna – eða einfaldlega vegna þess að það trúir á verkefnið sem unnið er að og vill sjá það verða að veruleika.

Hvað er seigla?

Seigla (e. resilience) er innri styrkur og þrautseigja sem gerir okkur kleift að láta ekki erfiðleika buga okkur. Við lærum að takast á við mótlæti og halda áfram. Sem börn er mikilvægt að fá að æfa seiglu með því að mæta áskorunum – en of oft er seigla misskilin sem það að „gefast aldrei upp“ sama hvað.

Seigla eða áfallatengsl?

Þarna liggur munurinn. Að þrauka í aðstæðum þar sem við erum beitt andlegu ofbeldi og kúgun er ekki seigla – heldur það sem kallast trauma bond eða áfallatengsl.

Slíkt mynstur byrjar oft sakleysislega: fyrst með óeðlilega miklu hrósi eða athygli (love bombing í samböndum), en svo smám saman með ósönnum athugasemdum og niðurbroti. Við sitjum eftir föst í hringrás þar sem hræðsla og þakklæti blandast saman, sem gerir okkur erfitt fyrir að losna.

Að efla seiglu í raun.

Sönn seigla snýst um að geta stígið út úr svona aðstæðum áður en þær valda okkur skaða. Hún snýst um að vernda eigin heilsu, setja mörk og treysta innsæinu.

Það getur hjálpað að:

- stunda hugleiðslu og jóga,

- vera úti í náttúrunni,

- skoða eigin hugmyndir um sjálfið („er ég nóg?“),

- og byggja upp stuðningsnet sem nærir.

Hér er því mikilvæg spurning:

Hvað gerir þú til að efla þína seiglu?

Að skynja lífið djúpt.

Ég hef oft hugsað um hvað það þýðir að vera með djúpa tilfinningaskynjun.

Að finna og lesa á milli lína, að skynja orku og upplifa lífið á tilfinningaríkan hátt.

Fyrir mér hefur það verið bæði gjöf og áskorun – fallegt, sterkt og stundum sárt.

Frá því ég man eftir mér hef ég verið svona – skilið sorgina og gleðina í fólki og allt þar á milli.

Skynjað m.a orðin sem eru ekki sögð, áföllin og brostna drauma sem hafa ekki fengið að rætast. Fundið skilnað, veikindi, sigra, barneignir ofl. áður en það er orðið að veruleika.

Ég hef oft ekki getað höndlað þessa gjöf og fengið blautar tuskur í andlitið fyrir að hitta á viðkvæma strengi. Þannig lærði ég að það getur fylgt hætta því að skynja svona djúpt,

þegar maður kann ekki enn með þessa gjöf að fara.

Ég lærði að segja ekki neitt, heldur leyfa fólki að reka sig á – þó ég sæi í hvað stefnir.

Ég er enn að læra að tækla þetta :)

Að skynja svona djúpt er ekki allra að skilja, og það er allt í lagi.

Við erum öll á okkar ferðalagi – hver og einn á sínum hraða.

Ég hef verið svo lánsöm að kynnast fólki sem skynjar lífið eins og ég.

Við eigum það sameiginlegt að leita í einveruna og náttúruna, til að hlaða okkur að nýju og tengjast okkur sjálfum – án leikrita og án hjarðhegðunar sem er svo ríkjandi í þessum heimi

Þessi gjöf hefur gefið mér djúpa innsýn í að vinna með fólki sem vill skilja og skynja, fólki sem vill opna fyrir tilfinningar sínar og tengjast sér betur.

Því það er í lagi að finna alls konar og setja það í orð. Það getur orðið losun – tár, andvarp, hlátur eða öskur – og þetta er allt hluti af því að vera mannlegur og leyfa sér að finna.

Því erum við ekki öll hér á ferðalagi til að læra, hver og einn á sinn hátt?

Hlýja til þín,

Steinunn Kristín

Fullt ofurtungl 05.11.2025

Þeir sem þekkja mig vita að ég elska tunglið og er meðvituð um áhrif þessa á líðan okkar.

Ef við erum tengd náttúrunni þá finnum við oft meira fyrir breytingum sem verða hjá okkur á mismunandi tunglstöðu og við lærum að sigla meira í gegnum þessar tilfinningar og skoða hvers vegna þær koma upp án þess að dæma eða greina.

Fulla tunglið í dag er eitt af þeim sterkustu á ári hverju og áhrifin af tunglinu vara ekki bara á deginum sem fulla tunglið er, heldur líka 2-3 dögum fyrir og eftir tunglið.

Við getum farið að finna fyrir tilfinningaspennu 2-3 dögum fyrir tunglið og jafnvel verri svefni og meiri verkjum í líkamanum. Það er eins og orkan verði þéttari og stundum þyngri sem nær svo hámarki á fullu tungli, þá förum við að sjá skýrar það sem hefur verið að rótast upp daganna á undan og náum oft úrlausnum á þessum degi ef við nýtum hann vel t.d með því að fara út í náttúruna, hugleiða eða ástunda mildar meðvitaðar hreyfingar eins og Yin jóga, þar sem við tengjum okkur vel við líkamann, finnum meira hvað hann er að segja við okkur og hugsum minna.

Dagarnir eftir fulla tunglið kemur oft meiri ró á hugann og þá er gott að melta allt það sem kom upp og læra af því og þakka fyrir okkar mannlegu hliðar sem hjálpa okkur að vaxa og þroskast.

Takk fyrir að lesa mínar hugrenningar en hér kemur smá úrdráttur úr grein sem ég þýddi frá þessari síðu.

Hér er farið nokkuð djúpt í virkni þessa einstaka fulla tungls.

í dag 5. nóvember kl. 13:19 að íslenskum tíma rís Ofurfyllt tungl í 13° Nautsins og lýsir upp himininn, með boð um að finna jarðtengingu mitt í þeim breytingum sem eiga sér stað – bæði innra með okkur og í umheiminum.

Þetta tungl er bjartasta og næst jörðu allra tungla ársins. Ljósið magnast og endurkastar bæði fegurð og dýpt tilfinningalífsins okkar, vekur upp sterkari tilfinningar og dýpkar þrána eftir að tengjast því sem sannarlega nærir og heldur okkur uppi.

Þetta er annað af þremur ofurtunglum ársins sem lýsa okkur fram á árslok. Slík tungl myndast þegar tunglið er í perigee, eða næst jörðu á sporbraut sinni,  þá verður áhrifamáttur þess mun sterkari. Því nær sem tunglið er, þeim mun meiri er þyngdaraflið á sjávarföllin – og þar sem við erum um 70% vatn, finnur innra líf okkar einnig fyrir þessum flóðum og fjörum tilfinningalega. Þetta býður okkur að læra að sigla með tilfinningabylgjunum í stað þess að láta þær bera okkur burt.

Fullt tungl í Nautinu hefur sterk áhrif á fólk sem er með reikistjörnur í stöðugum merkjum (Nauti, Ljóni, Sporðdreka og Vatnsbera). Það getur kveikt umbreytingar, hrist okkur úr stöðnun og fengið okkur til að sleppa tökum á því sem hamlar vexti okkar. Við erum hvött til að finna öryggi og stöðugleika fyrst og fremst innra með okkur sjálfum.

Fullt tungl er tími þar sem hlutir ná hámarki og uppskeru og við ljúkum jafnvel einhverri hringrás. Þegar sólin lýsir upp allt yfirborð tunglsins fáum við tækifæri til að sjá skýrar hvað býr í djúpinu. Tilfinningar koma upp á yfirborðið og okkur er boðið að mæta þeim með meðvitund í stað þess að láta þær ráða för.

Þetta tungl virkjar andstæðurnar milli Nauts og Sporðdrekans, jarðar og vatns, stöðugleika og umbreytingar, að halda og sleppa. Það minnir okkur á að jafnvægi finnst ekki í andstæðum heldur í dansinum á milli þeirra, þetta dregur fram bæði löngun okkar til breytinga og mótþróa okkar gegn þeim.

Á þessum tíma fáum við tækifæri til að skerpa á hæfileikanum til að greina hvenær tími er til að varðveita það sem við höfum þegar byggt upp – og hvenær í staðinn er kominn tími til að sleppa tökunum og umbreytast.

Í Nautinu er tunglið „í háleitri stöðu“ – þar fær það að njóta sín með allri sinni mýkt og næmni. Það kallar á hlýju, vellíðan og næringu og minnir okkur á að gefa okkur tíma til að hlúa að okkur sjálfum og innra barninu okkar með þolinmæði og blíðu. Þetta er tími til að hægja á, anda djúpt og finna ró í líkamanum og tengjast tilfinningu fyrir innri stöðugleika og jafnvægi, mitt í þeim breytingum sem eiga sér stað – bæði innra með okkur og í umhverfinu.

Þetta tungl minnir okkur á að stöðugleiki kemur ekki úr stjórn heldur úr trausti – trausti til lífsins, til náttúrunnar og til þess að við höfum innri styrk til að aðlagast breytingum.

Þegar bjartasta tungl ársins rís í dansi jarðar og vatns, líkama og sálar, býður það þér að mýkjast inn í núið, treysta takti öndunarinnar og leyfa hjartanu að lýsast upp af blíðu og sannleika.

Umbreyting þarf ekki alltaf kraft – stundum gerist hún þegar við drögum okkur í hlé, í kyrrðinni og í því að sleppa.

Takk fyrir að lesa💛

Hlýja til þín,

Steinunn Kristín

Vefsíða: www.yoganidrasteinunnkr.is

©Yoga Nidra Steinunn Kristín

Allur réttur áskilinn.

Notkun á efni síðunnar er óheimil án samþykkis.